Fótbolti

Alltof dýrt að sjá Lionel Messi spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi er floginn til Bangladess.
Lionel Messi er floginn til Bangladess. Mynd/AP
Bangladess er eitt af fátækustu löndum í heimi og fótboltaáhugamenn í landinu hafa brugðist illa við rándýrum miðum inn á vináttulandsleik Argentínu og Nígeríu sem fer fram í Bangladess á morgun.

Argentínska landsliðið hefur verið gríðarlega vinsælt í Bangladess síðan á níunda áratug síðustu aldar og það hefur því allt snúist um þennan leik í landinu síðustu vikurnar.

Ódýrustu miðarnir til þess að sjá Lionel Messi spila í Dhaka kosta hinsvegar 11.500 krónur og það hafa þess vegna aðeins helmingur miðanna selst á þennan stærsta leik í sögu Bangladess. Leikurinn fer fram á Bangabandhu National leikvanginum sem tekur 24 þúsund manns.

Bangladess er aðeins í 139. sæti á styrkleikalista FIFA og heimamenn eru ekki vanir að sjá bestu fótboltamenn heims öðruvísi en á sjónvarpsskjánum. Nokkrir þeirra sem hafa ekki efni á miða á leikinn hafa kosið að kaupa sig inn á æfingu Argentínu í staðinn sem kostar þá 1500 krónur íslenskar sem þykja heldur ekki vera neinir smáaurar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×