Fótbolti

Ljungberg kominn með samning hjá japönsku liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freddie Ljungberg.
Freddie Ljungberg. Mynd/Nordic Photos/Getty
Freddie Ljungberg, fyrrum stjörnuleikmaður Arsenal og sænska landsliðsins, er búinn að gera samning við japanska félagið Shimizu S-Pulse. Þessi 34 ára gamli leikmaður hefur leikið í Bandaríkjunum og í Skotlandi síðan að hann yfir ensku úrvalsdeildina árið 2008.

Ljungberg hefur reyndar vakið meiri athygli fyrir fyrirsætustörf en fótboltaleiki undanfarin ár en hann spilaði síðast með Celtic í skosku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Freddie Ljungberg var á hápunkti síns ferils þegar hann lék með Arsenal í níu ár á árunum 1998 til 2007. Hann vann tvo meistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla með félaginu og var lykilmaður í Arsenal-liðinu sem tapaði ekki leik tímabilið 2003 til 2004.

Ljungberg bætist þar með í hóp nokkra heimsfrægra leikmanna sem hafa drifið sig til japans á lokakafla síns ferils en það eru menn eins og Zico, Gary Lineker og Dragan Stojkovic.

Ljungberg lagði landsliðsskóna á hilluna árið 2008 en hann var með 14 mörk í 75 landsleikjum frá 1998 til 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×