Fótbolti

Svíar settu fimm á síðustu 26 mínútunum - Holland vantar enn eitt stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Wilhelmsson skoraði tvö mörk í kvöld.
Christian Wilhelmsson skoraði tvö mörk í kvöld. Mynd/AFP
Hollendingar þurfa að bíða eftir því að gulltryggja sig inn á EM þrátt fyrir 2-0 sigur á Finnum í undankeppni EM 2012 í kvöld. Þeir urðu að treysta á það að Svíar myndu tapa stigum í San Marínó. Svíar þurftu að bíða lengi eftir fyrsta markinu en unnu að lokum 5-0 sigur.

Kevin Strootman, miðvörður frá PSV og Luuk De Jong, framherji frá Twente, skoruðu mörk Hollendinga í Finnlandi. Hollenska landsliðið hefur unnið alla átta leiki sína í keppninni og vantar nú bara eitt stig til að tryggja sér sæti á EM.

Kim Källström skoraði fyrsta mark Svía eftir 64 mínútur í San Marínó en Christian Wilhelmsson (2), Martin Olsson og Tobias Hysén bættu síðan við mörkum á síðustu tuttugu mínútunum. Svíar hafa 18 stig eins og Ungverjar en hafa leikið leik færra. Ungverjar unnu 2-0 útisigur á Moldóvíu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×