Fótbolti

Spánverjar skoruðu sex og eru komnir inn á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Álvaro Negredo.
Álvaro Negredo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Heims- og Evrópumeistarar Spánar urðu þriðja þjóðin til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM þegar liðið vann 6-0 stórsigur á Liechtenstein í Logrono í kvöld. Spánverjar hafa unnið alla sex leiki sína í undankeppninni og eru með átta stiga forskot á Tékka þegar aðeins sex stig eru eftir í pottinum. Þýskaland og Ítalía eru einnig komin inn á EM sem fer fram í Póllandi og Úkraínu næsta sumar.

Sevilla-maðurinn Álvaro Negredo fékk tækifæri í framlínunni í kvöld og skoraði tvö fyrstu mörk leiksins á 34. og 37. mínútu leiksins. Fyrra markið kom eftir sendingu frá Xabi Alonso og það seinna kom eftir sendingu David Villa.

Xavi skoraði þriðja markið á lokamínútu fyrri hálfleiks með skoti beint úr aukaspyrnu. Xavi fór síðan útaf í hálfleik og Cesc Fabregas kom inn fyrir hann.

Sergio Ramos skoraði fjórða markið á 52. mínútu eftir sendingu frá Negredo og David Villa það fimmta á 60. mínútu eftir stoðsendingu frá Chelsea-manninum Juan Manuel Mata.

Villa bætti við sínu öðru marki á 78. mínútu eftir aukaspyrnu frá Xabi Alonso. Villa hefur þar með skorað 49 mörk fyrir spænska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×