Fótbolti

Capello: Eins og við séum búnir að missa sjálfstraustið á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney í leiknum í gær.
Wayne Rooney í leiknum í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, viðurkenndi að sínir menn hafi haft heppnina með sér í 1-0 sigrinum á Wales á Wembley í gær. Eftir leikinn vantar enska landsliðinu aðeins eitt stig til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM sem fer fram næsta sumar.

„Við vorum heppnir. Þeir gerðu stór mistök í markinu sem við nýttum okkur. Við spiluðum ekki vel síðustu fimmtán mínúturnar í leiknum, náðum aldrei almennilegum tökum á leiknum og pressuðum aldrei boltann. Við spiluðum skyndisóknabolta í hægagangi," sagði Capello.

„Liðið spilaði vel í 20 mínútur í fyrri hálfleik en við verðum að spila vel allan leikinn. Stundum skipta úrslitin samt mestu máli og mótherjar okkar á Wembley koma alltaf hingað með mikið hugrekki og mikinn kraft," sagði Fabio Capello.

„Það er samt eins og við séum búnir að missa sjálfstraustið á Wembley," sagði Capello og talaði um að enska landsliðið hafi spilað mjög vel á Wembley í síðustu undankeppni.

Ashley Young tryggði enska liðinu þrjú stig og Capello hrósaði þessum skemmtilega leikmanni Manchester United.

„Ashley Young er mjög góður leikmaður. Hann var góður þegar hann byrjaði hjá mér og nú er hann búinn að spila fyrir mig í þrjú eða fjögur ár. Hann er mjög mikilvægur fyrir okkur og hreyfir sig mjög vel með og án bolta," sagði Capello.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×