Fótbolti

UEFA staðfestir að Holland sé komið á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hollenska landsliðið fagnar marki.
Hollenska landsliðið fagnar marki. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnusamband Evrópu gaf út í dag að Hollendingar hafa nú tryggt sér sæti í úrslitakeppni EM 2012 eftir 2-0 sigur á Finnum í gær.

Hollendingar hafa unnið alla átta leiki sína í riðlinum til þessa og er núna ljóst að liðið fer annað hvort áfram sem sigurvegari riðilsins eða sem það lið sem nær bestum árangri af þeim sem lenda í öðru sæti sinna riðla.

Svíar eiga enn möguleika á að ná efsta sæti riðilsins af Hollendingum - ef Holland tapar báðum sínum leikjum sem eftir eru.

Það þýðir að Holland bætist í hóp með Þýskalandi, Spáni og Ítalíu sem hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppninni ásamt gestgjöfum Póllands og Úkraínu.

Sigurvegarar riðlanna níu í undankeppninni komast beint á EM, ásamt því liði sem bestum árangri nær af þeim sem lenda í öðru sæti. Hin átta taka þátt í umspili í nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×