Enski boltinn

Dalglish: Coates fær tíma til að aðlagast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Comolli og Coates við undirritun samnings þess síðarnefnda.
Comolli og Coates við undirritun samnings þess síðarnefnda. Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish segir að varnarmaðurinn Sebastian Coates fái nægan tíma til að aðlagast sínu nýja lífi hjá Liverpool í Englandi. Félagið keypti Coates á dögunum frá Nacional í heimalandi hans, Úrúgvæ.

Coates sló í gegn á Copa America í sumar og var valinn besti ungi leikmaður keppninnar. Hann var lykilmaður í vörn Úrúgvæ sem fór alla leið og vann keppnina.

„Við erum hæstánægðir með að hafa fengið hann. Viðurkenningin sem hann fékk á Copa America segir sitt miðað við að Alexis Sanchez var seldur til Barcelona fyrir 40 milljónir evra. Hann hlýtur að hafa staðið sig mjög vel,“ sagði Dalglish við enska fjölmiðla.

„Við þurfum bara að gefa honum tíma til að aðlagast og gerum við það með bros á vör.“

Damien Comolli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool, hefur fylgst með Coates undanfarin tvö ár en hann hafði nóg fyrir stafni í sumar. Auk þess að kaupa Coates hafði hann yfirumsjón með kaupunum á Jordan Henderson, Charlie Adam, Stewart Downing, Alexander Doni og Jose Enrique. Að ógleymdum Craig Bellamy sem kom að láni frá Manchester City.

Þar að auki fóru sextán leikmenn frá félaginu í sumar, ýmist seldir eða lánaðir til annarra félaga. Dalglish hrósaði Comolli sérstaklega fyrir hans framlag.

„Hann hefur staðið sig ótrúlega vel enda tók þetta mikið á fyrir alla þá sem áttu hlut að máli. Damien er nú í fríi í nokkra daga og á hann það svo sannarlega skilið.“

„En ég vil taka það fram að þeir drengir sem fóru frá félaginu voru frábærir og komu upp engin vandamál í tengslum við það. Þeir eiga hrós skilið og ég óska þeim alls hins besta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×