Enski boltinn

Leonardo: Berbatov ekki til sölu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Berbatov og Michael Owen þurfa að deila spiltíma hjá Manchester United.
Berbatov og Michael Owen þurfa að deila spiltíma hjá Manchester United. Nordic Photos/Getty Images
Brasilíumaðurinn Leonardo, yfirmaður knattspyrnumála hjá Paris Saint Germain, segir Dimitar Berbatov, leikmann Manchester United, ekki til sölu. Það hafi hann fengið að heyra í símtali en á hinum enda línunnar var Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United.

PSG vann sinn fyrsta leik í frönsku deildinni í kvöld þegar liðið lagði Valenciennes á heimavelli 2-1. Félagið hefur verið iðið við kolann á leikmannamarkaðnum undanfarnar vikur og var Leonardo spurður út í möguleg kaup á Dimitar Berbatov að leiknum loknum.

„Ég spjallaði við Ferguson í síma og hann sagðist treysta á Berbatov, hann væri ekki til sölu," sagði Leonardo við France Football.

Berbatov, markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, hefur verið orðaður við brotthvarf frá félaginu. Hann virðist hafa færst enn aftar í goggunarröðinni hjá United en Englendingurinn Danny Welbeck hefur spilað fleiri mínútur en Búlgarinn í undanförnum leikjum.

PSG hefur valdið vonbrigðum í upphafi tímabils sérstaklega í ljósi fjölmargra nýrra leikmanna. Nýjasta stjarnan, Argentínumaðurinn Javier Pastore, spilaði síðasta hálftímann fyrir PSG í kvöld en þetta var fyrsti leikur kappans í búningi Parísarliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×