Fótbolti

Leikur í Mexíkó stöðvaður vegna skotárásar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stöðva þurfti viðureign Santos Laguna og Monarcas Morlia í efstu deildinni í Mexíkó á laugardag vegna skotárásar utan við leikvanginn. Komið var fram á 40. mínútu og leikurinn enn markalaus þegar dómari leiksins flautaði og leikmenn forðuðu sér eins hratt og þeir gátu af vellinum.

Atburðinn má sjá eftir 18 sekúndur í myndbandinu í spilaranum hér að ofan.

Leikmenn voru ekki þeir einu sem óttuðust um öryggi sitt því tuttugu þúsund áhorfendum stóð ekki á sama og fóru margir hverjir á fjóra fætur í stúkunni. Einn öryggisvörður slasaðist í skotárásinni.

Að sögn BBC fréttastofunnar var skotið í átt að öryggisvörðum fyrir utan leikvanginn. Yfirvöld í borginni Torreon, þar sem leikurinn fór fram, segja skotárásina hafa hafist þegar vopnaðir menn í þremur bifreiðum, virtu boð lögreglumanna um að stöðva bifreiðina að vettugi.

Alejandro Irarragorri, stjórnarformaður heimaliðsins Santos, fór út á völlinn og ræddi við áhorfendur að skothríðinni lokinni.

„Við hjá Santos erum miður okkar yfir atburðum sem þessum sem við þurfum að lifa við. Því miður þarf að fresta leiknum af augljósum ástæðum. Við munum reyna að ná tökum á atburðum sem þessum. Við erum sárir fyrir hönd Morelia, dómaranna og annarra gesta," sagði Irarragorri.

Skotárásir á götum úti eru ekki óalgengar í Norður-Mexíkó þar sem gengi berjast um yfirráðasvæði til sölu á eiturlyfjum. Yfir 35 þúsund manns hafa látið lífið vegna ofbeldis sem á rætur sínar að rekja til eiturlyfja síðastliðin fimm ár.

Fresta þurfti hafnarboltaleik í Norður-Mexíkó á síðasta ári af sömu ástæðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×