Fótbolti

Fallegustu mörkin sem fengu ekki að standa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Edinson Cavani skoraði stórglæsilegt mark með hjólhestaspyrnu í æfingaleik gegn Barcelona. Því miður fyrir Cavani var aðstoðardómarinn búinn að flagga til merkis um rangstöðu.

Óhætt að segja að Cavani hafi verið óheppinn enda var hann sjálfur ekki rangstæður. Marek Hamsik, sem skallaði boltann þvert á teiginn á Cavani var hins vegar fyrir innan.

Leiknum lauk með 5-0 sigri Barcelona en mark Cavani, sem hefði komið Napoli yfir, er hægt að sjá í spilaranum hér að ofan.

Vefsíðan Guardian hefur tekið saman nokkur af fallegustu mörkum allra tíma sem fengu ekki að standa.

Hjólhestaspyrna Kevin Keegan

Bakfallsspyrna Kevin Keegan með Southampton gegn Manchester United á Old Trafford keppnistímabilið 1981-1982. Markið fékk ekki að standa af óskiljanlegum ástæðum.

Sjá hér.

Hjólhestaspyrna Schmeichel

Stuðningsmenn Manchester United héldu að Peter Schmeichel hefði bjargað liðinu á hinum enda vallarins gegn Wimbledon á Selhurst Park í deildabikarnum um árið. Wimbledon sló Englandsmeistarana út með 1-0 sigri.

Sjá hér.

Þegar Best stal boltanum af Banks

George Best stal boltanum á stórskemmtilegan hátt af Gordon Banks í landsleik N-Írlands og Englands árið 1971. Markið var hins vegar dæmt af. Síðan þá hefur reglunum verið breytt á þann veg að sóknarmenn mega ekki trufla markvörðinn á nokkurn hátt.



Sjá hér.


Glæsimark Ronaldo sem Nani eyðilagði

Síðast en ekki síst verður að nefna til sögunnar klúður Nani í æfingaleik Portúgala og Spánverja á síðasta ári. Cristiano Ronaldo virtist vera búinn að skora stórkostlegt mark þegar liðsfélagi hans, Nani, skallaði boltann yfir línuna. Því miður fyrir Ronaldo og aðra Portúgala var Nani rangstæður og markið dæmt af.



Sjá hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×