Fótbolti

Kolbeinn skoraði tvö mörk fyrir Ajax í sigri á Vitesse

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson skoraði tvö mörk fyrir Ajax í kvöld þegar liðið vann 4-1 heimasigur á Vitesse í toppslag í hollensku úrvalsdeildinni. Ajax hefur náð í 10 stig af 12 mögulegum í fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu en liðið var með jafnmörg stig og Vitesse fyrir þennan leik.

Kolbeinn skoraði tvö síðustu mörk Ajax-liðsins í leiknum en áður höfðu þeir Christian Eriksen (53. mínúta) og Derk Boerrigter (62. mínúta) komið liðinu í 2-0. Kolbeinn skoraði fyrra markið sitt á 63. mínútu og það síðara leit dagsins ljós átta mínútum síðar. Hann fékk síðan heiðursskiptingu mínútu síðar. Alexander Büttner minnkaði muninn fyrir Vitesse-liðið í lokin.

Kolbeinn hefur þar með skorað í þremur leikjum í röð og hefur ennfremur átt þátt í marki í öllum fjórum deildarleikjum sínum í búningi Ajax-liðsins sem keypti hann frá AZ Alkmaar fyrir þetta tímabil.

Kolbeinn er markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt Marc Janko hjá Twente en þeir hafa báðir skorað fjögur mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×