Fótbolti

Heilt lið réðst á dómara sem bjargaði sér á hlaupum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dómaratríó í Argentínu komst í hann krappan á dögunum þegar allt varð vitlaust í leik San Guillermo og Atletico Tostado í argentínsku 5. deildinni. Dómara leiksins varð á þau mistök að gefa röngum manni rautt spjald og hann þurfti í kjölfarið að forða sér á hlaupum undan leikmönnum Tostado sem réðust allir að honum.

Það varð allt vitlaust þegar Atlético Tostado liðið fékk aukaspyrnu á miðju vallarins. Leikmaðurinn sem var brotið á var mjög ósáttur og sló til mótherja síns. Dómarinn sá það og fór í vasann til að finna rauða spjaldið en honum varð það á að sýna það röngum leikmanni.

Sá sem fékk rauða spjaldið missti þá gjörsamlega stjórn á sér og í kjölfarið réðust allir samherjar hans á dómarann. Þjálfarar liðsins blönduðu sér síðan í málið en í stað þess að róa menn niður þá lögðu þeir leikmönnum sínum lið og dómaratríóið mátti ekki við margnum.

Dómarinn ákvað því að forða sér af vellinum með aðstoðardómurunum með liðsmenn Atletico Tostado á eftir sér. Hann slapp ekki fyrr en hann stökk með hausinn á undan yfir hátt grindverk umhverfis völlinn.

Þetta er ekki skemmtileg sjón en undir lokin er þetta þó orðið grátbroslegt og hér er vissulega hægt að segja að sjón sé sögu ríkari.

Hægt er að sjá myndband af þessu með því að smella hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×