Fótbolti

Elsti sonur Eiðs Smára færir sig um set í Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sveinn Aron tók við verðlaunum föður síns þegar Eiður Smári var kjörinn íþróttamaður ársins árið 2008.
Sveinn Aron tók við verðlaunum föður síns þegar Eiður Smári var kjörinn íþróttamaður ársins árið 2008. Mynd/Stefán
Sveinn Aron Guðjohnsen, þrettán ára sonur Eiðs Smára Guðjohnsen knattspyrnumanns, er búinn að skipta um félag í Barcelona-borg eftir því sem kemur fram í spænskum fjölmiðlum í dag.

Sveinn Aron hefur æft með yngri flokkum Barcelona undanfarin ár eins og áður hefur verið greint frá í íslenskum fjölmiðlum en samkvæmt frétt á heimasíðu spænska dagblaðsins Sport er hann í hópi fjölmargra ungra knattspyrnumanna sem fóru frá félaginu í sumar.

Samkvæmt sömu frétt er Sveinn Aron genginn til liðs við UE Cornellá sem er staðsett í sömu borg. Þaðan hafa margir góðir knattspyrnumenn komið en nærtækasta dæmið eru þeir Ignasi Miguel og Edgar Badia sem urðu Evrópumeistarar með U-19 liði Spánar um helgina. Miguel er nú á mála hjá Arsenal á Englandi en Badia hjá Espanyol.

Eiður Smári lék með Barcelona frá 2006 til 2009 en gekk nýverið til liðs við AEK Aþenu í Grikklandi og samdi við félagið til tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×