Fótbolti

Pele varar Neymar við því að fara of snemma til Evrópu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brasilíska goðsögnin Pele hvetur landa sinn Neymar til þess að vera áfram í herbúðum Santos frekar en að halda til Evrópu. Hinn 19 ára Neymar er orðaður við fjölmörg stórlið í Evrópu þar á meðal Chelsea og Manchester City.

Pele, sem vann á sínum tíma þrjá heimsmeistaratitla í knattspyrnu, spilaði nær allan sinn feril fyrir Santos. Hann segir Neymar betur borgið að halda áfram að þróa sinn leik í Brasilíu.

„Hann getur orðið frábær leikmaður eins og Messi eða Ronaldo, engin spurning. En ég held að það sé ekki tímabært fyrir hann að fara til Englands eða Ítalíu," sagði Pele sem hefur áhyggjur af hörðum varnarleik í deildunum.

„Það væri erfitt fyrir hann þar sem hann er mjög ungur. Knattspyrnu á Englandi og Ítalíu snýst mikið um líkamlega baráttu. Það væri líklega betra fyrir hann að fara til Hollands, Frakklands eða Spánar," segir Pele.

Pele spilaði allan sinn feril fyrir Santos áður en hann lauk ferlinum með New York Cosmos í Bandaríkjunum. Hann telur best fyrir Neymar að halda sig í Brasilíu fram að heimsmeistaramótinu árið 2014.

„Hann (Neymar) getur ennþá bætt sig þó hann sé nú þegar frábær leikmaður," sagði Pele um landa sinn.

Í myndbandinu að ofan má sjá markið glæsilega sem Neymar skoraði gegn Santos um daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×