Fótbolti

Landsliðsþjálfari Ástrala segir Kewell að koma sér í form

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Harry Kewell í landsleik með Ástralíu.
Harry Kewell í landsleik með Ástralíu. Nordic Photos/AFP
Harry Kewell þarf að hraða leit sinni að nýju félagi miðað við nýjustu skilaboð sem landsliðsþjálfari Ástrala sendi honum. Kewell var ekki valinn í landsliðshópinn fyrir vináttuleik gegn Wales. Landsliðsþjálfarinn segir hann ekki í formi.

Kewell, sem er 32 ára, var á mála hjá Galatasaray á síðustu leiktíð en samningur hans við tyrkneska félagið rann út í vor. Í fyrstu leit út fyrir að hann myndi skrifa undir hjá félagi í áströlsku deildinni en umboðsmaður kappans dró úr þeim fréttum fyrir skemmstu.

Holger Osieck, landsliðsþjálfari Ástrala, valdi Kewell ekki í landsliðshóp sinn fyrir vináttuleikinn gegn Wales 10. ágúst. Skiljanlegt myndu margir segja þar sem Kewell er án félags. Kollegi Kewell, Lucas Neill, var hins vegar valinn þrátt fyrir að vera félagslaus.

„Það er smávegis munur á þeim. Annar þeirra er í fínu formi en hinn ekki,“ sagði Osieck. Undankeppnin fyrir HM 2014 hefst hjá Áströlunum í upphafi september þegar þeir taka á móti Tælandi.

„Lucas hefur lagt hart að sér en Harry er ekki í mjög góðu formi. Hann er klárlega ekki í standi til þess að spila núna,“ sagði Osieck um Kewell sem verið hefur lykilmaður í landsliði Ástrala í áratug.

Kewell hefur spilað 54 landsleiki fyrir Ástrali og spilað á tveimur heimsmeistaramótum. Osieck bindur vonir við að Kewell vinni í sínum málum.

„Við vitum öll hvað Harry getur gert fyrir landsliðið. Ég vona svo sannarlega að hann verði kominn í form fyrir undankeppnina,“ sagði Osieck.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×