Innlent

Ellen ekki á landinu heldur þýskur tvífari

Boði Logason skrifar
Caroline ásamt íslenskri vinkonu sinni á Þingvöllum í dag. Eins og sést á þessari mynd er svipur með henni og skemmtikraftinum Ellen Degerenes.
Caroline ásamt íslenskri vinkonu sinni á Þingvöllum í dag. Eins og sést á þessari mynd er svipur með henni og skemmtikraftinum Ellen Degerenes. Mynd úr einkasafni

„Ég trúi þessu varla, við erum bara búin að hlæja og hlæja af þessu,“ segir Caroline Koch, þýskur ferðamaður sem er í fríi hér á landi í nokkra daga hjá íslenskum vinum sínum.

Þegar fréttir bárust af veru Ellen Degerenes, skemmtikrafti og þáttastjórnanda, hér á landi í morgun brá henni heldur betur í brún og vinkonur hennar lögðu saman tvo og tvo. Caroline þykir sláandi lík stórstjörnunni.

Stjórnarmaður Hinseigin daga sagðist í samtali við stærstu vefmiðla landsins vonast til að Ellen kæmi í gönguna á laugardaginn og sagði hana vera mikið átrúnaðargoð hjá lesbíum og hommum, en Ellen er samkynhneigð.

Rætt var við eiganda Söstrene Grene í Smáralind í fjölmiðlum, meðal annars hér á Vísi, sem sagðist hafa afgreitt sjónvarpsstjörnuna í Smáralind í gær. Svo skemmtilega vill til að Caroline fór í Smáralind í gær ásamt íslenskum vinkonum sínum og versluðu þær meðal annars í búðinni Söstrene Grene.

Eftir að ruglingurinn komst upp hafði fréttastofa aftur samband við eiganda búðarinnar, sem þótti misskilningurinn engu síður spaugilegur en Caroline sjálfri. Hún vildi hinsvegar ítreka það að hún hafði ekki frumkvæði að því að hafa samband við fjölmiðla.

Caroline segir að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem hún lendir í aðstæðum sem þessum. 

„Ég hef oft lent í þessu um allan heim en ekkert eins og hér á Íslandi að þetta fari í fjölmiðla,“ segir hún.

Og henni finnst skemmtilegt að vera orðin fræg á Íslandi. „Það er dásamlegt,“ segir hún hlæjandi. Hún segist vera mikill aðdáandi Ellenar og segist hafa horft mikið á hana í gegnum tíðina. 

„Mér finnst hún frábær skemmtikraftur og rosalega fyndin.“


Tengdar fréttir

Stórstjarnan Ellen Degeneres í Smáralind

Þáttastjórnandinn og grínistinn Ellen Degeneres er í heimsókn á Íslandi, mögulega í tengslum við Gay Pride-hátíðina sem er að hefjast. Ellen er sjálf lesbía og hefur barist ötullega fyrir réttindum samkynhneigðra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.