Íslenski boltinn

Bjarni: Áttum að nýta hraðaupphlaupin

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar.
Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Daníel
Bjarna Jóhannssyni þjálfara Stjörnunnar leið eins og hann hefði tapað í kvöld þegar lið hans gerði 1-1 jafntefli við Víking sem jafnaði sekúndum áður en flautað var til leiksloka.

„Það er sárt að tapa tveimur stigum í lokin. Það var fimm mínútum bætt við og það var svolítið mikið en við vorum óskynsamir mínútu fyrir markið og áttum að halda boltanum betur,“ sagði Bjarni við Vísi eftir leikinn.

Stjarnan lék á köflum skemmtilegan og léttleikandi sóknarleik en liðið hefur oft verið beittara fremst á vellinum í sumar en í kvöld. „Það er stór skemmtilegt að horfa á Stjörnuna spila. Við erum duglegir og hraðir en það vantar að nýta okkur yfirburði okkar í þessum leikjum til að safna fleiri stigum. Það vantaði hjá okkur að vera rólegri í síðustu sendingunni við markið.“

Eftir að Stjarnan komst yfir breyttist leikurinn og Víkingur komst mun meirar inn í leikinn og sóttu af krafti. „Það sem gerist við markið er að eins og stundum þá dettum við aðeins aftar á völlinn. Þeir dældu boltanum fram og fengu nokkrar aukaspyrnur sem voru hættulegar. Á þeim tímapunkti hefði ég viljað sjá okkur nýta hraðaupphlaupin betur. Það voru tækifæri til þess,“ sagði Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×