Enski boltinn

Terry: Villas-Boas er nútíma þjálfari sem heldur ekki langar ræður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
André Villas-Boas.
André Villas-Boas. Mynd/Nordic Photos/Getty
John Terry, fyrirliði Chelsea, er mjög sáttur með nýja stjórann á Brúnni, Portúgalann André Villas-Boas. Villas-Boas er tíundi stjórinn sem hinn þrítugi  Terry hefur haft á ferli sínum með Chelsea en jafnframt sá langyngsti enda er Villas-Boas aðeins þremur árum eldri en Terry.

„Hann hefur komið sterkur inn og við höfum allir verið á sömu blaðsíðu frá fyrsta degi. Við allir mjög forvitnir að sjá hvað hann gerir á næstu vikum," sagði John Terry.

„Hann heldur ekki langar ræður og mun ekki tala í 20 eða 30 mínútur í einu. Hann er stuttorður en kemur öllu mjög vel til skila hvort sem það er á æfingum eða á liðsfundum," sagði Terry.

Terry er mjög ánægður með æfingarnar og hann segir það fara ekki á milli mála að Villas-Boas vilji umfram allt að Chelsea-liðið spili flottan fótbolta. Bolti er mikið notaður á öllum æfingum og Villas-Boas lætur menn ekki hlaupa úr sér lungun.

„André er nútíma þjálfari og ég er hrifinn af hans þjálfaraaðferðum. Hann skilur leikmennina og notar ekki einhverja gamaldags aðferðir," sagði Terry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×