Fótbolti

Fyrrum Liverpool stjarna tekur við landsliði Makedóníu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Toshack vann deildina þrisvar og Evrópukeppni meistaraliða einu sinni með Liverpool.
Toshack vann deildina þrisvar og Evrópukeppni meistaraliða einu sinni með Liverpool. Nordic Photos/Getty
Walesverjinn John Toshack hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari landsliðs Makedóníu í knattspyrnu. Toshack, sem er 62 ára gamall, hefur komið víða við og meðal annars þjálfað Real Madrid og landslið Wales.

„Ég er upp með mér að knattspyrnusamband Makedóníu hafi valið mig sem landsliðsþjálfara þjóðar sinnar. Ég vona að með góðri samvinnu takist okkur að ná árangri," sagði Toshack.

Toshack þjálfaði síðast landslið Wales en var látinn fara í september síðastliðnum. Toshack var framherji á sínum tíma og vann til fjölmargra titla með Liverpool.

Makedónía situr í 96. sæti styrkleikalista FIFA. Fyrsti leikur Makedóníu undir stjórn Toshack verður gegn Rússum 2. september í undankeppni EM 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×