Enski boltinn

Dein um Wenger: Auðvelt að reka en erfiðara að ráða einhver betri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wenger og Dein unglegir fyrir tíu árum.
Wenger og Dein unglegir fyrir tíu árum. Nordic Photos/Getty
David Dein, fyrrum stjórnarformaður Arsenal, segir Arsene Wenger enn hafa mikinn metnað og sigurvilja. Wenger hefur legið undir gagnrýni undanfarin misseri vegna titlaleysis. Dein bendir á að auðvelt sé að reka knattspyrnustjóra en erfiðara að finna betri mann í starfið.

„Hvernig fyllirðu í skarð Arsene Wegner? Það verður ekki auðvelt,“ sagði Dein sem hætti störfum hjá Arsenal árið 2007.

Dein var maðurinn á bakvið komu Wenger til Arsenal árið 1996. Síðan þá hefur Wenger skilað þremur Englandsmeistaratitlum í hús, þeim seinasta árið 2004.

„Hann hefur hæfileikaríka leikmenn og auðvitað vill hann bæta liðið. Ég veit að hann er að leita að tveimur til þremur leikmönnum til viðbótar,“ sagði Dein.

Dein segir þrátt fyrir nýja leikmenn væru mistök að vera með yfirlýsingar eða gefa loforð um titla.

„Ef stjórnarformaður eða knattspyrnustjóri lýsti opinberlega að liðið ætlaði að vinna titilir væri hann að gera mistök,“ segir Dein. Hann segir samkeppnina mikla og óraunhæfar kröfur um stöðugan árangur.

„Það getur ýmislegt óvænt gerst í fótbolta. Mistök, meiðsli og leikbönn. En Arsene er mjög einbeittur og ákveðinn. Ég hitti hann reglulega og hann hefur jafnmikinn eldmóð og þegar hann hóf störf. Hann þráir að sigra og ég trúi á getu hans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×