Fótbolti

Brasilískir stuðningsmenn hóta Fred - vill komast í burtu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fred fagnar marki í leik með Fluminense.
Fred fagnar marki í leik með Fluminense. Nordic Photos/AFP
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Fred óttast um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar í Ríó. Fred, sem spilar með Fluminense í heimalandinu, hefur verið hótað af stuðningsmönnum félagsins undanfarið.

Vandamálið hófst sunnudaginn 31. júlí þegar fjórir meðlimir harðasta kjarna stuðningsmanna Fluminense áttu ýmislegt vantalað við Fred á heimili hans eftir 4-0 sigurinn á Ceara.

„Ég var með dóttur minni og tveimur systrum. Ég ræddi við þá. Þeir sögðu að ef þeir sæju einhvern leikmann skemmta sér myndu þeir berja hann. Þetta var mjög slæmt. Mér fannst mér vera ógnað,“ sagði Fred á blaðamannafundi.

Tveimur dögum síðar fékk Fred símtal frá einum fjórmenninganna þegar hann var úti að borða með liðsfélaga sínum Rafael Moura.

„Klukkan 01.15 um nóttina hringdi einn þeirra í mig. Ég var mjög áhyggjufullur,“ sagði Fred.

„Þegar við keyrðum í burtu frá veitingastaðnum eltu þeir okkur. Ég fór ekki heim heldur heim til Moura. Sem almennur borgari lagði ég fram kæru.“

Fred neitaði að spila gegn Internacional á fimmtudaginn og sagði að ef aðstæður myndu ekki breytast yfirgæfi hann félagið.

„Ég þarf að vera öruggur til þess að geta búið áhyggjulaus í Ríó. Ég á fimm ár eftir af samningi mínum en ég þarf fullvissu um öryggi mitt. Eins og staðan er í dag vil ég fara,“ sagði Fred.

Brasilíumaðurinn, sem kom frá Lyon í Frakklandi árið 2009, segist þó ekki munu spila með öðru brasilísku félagi af virðingu við Fluminense.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×