Fótbolti

Landsliðsþjálfari Kólumbíu kýldi konu - biðst afsökunar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gomez kom Kólumbíu í 8-liða úrslit í Copa America þar sem liðið beið lægri hlut gegn Perú.
Gomez kom Kólumbíu í 8-liða úrslit í Copa America þar sem liðið beið lægri hlut gegn Perú.
Hernan Dario Gomez, landsliðsþjálfari Kólumbíu í knattspyrnu, hefur beðist afsökunar á að hafa slegið konu á öldurhúsi í Kólumbíu um helgina.

Að sögn sjónarvitna var konan undir áhrifum áfengis og hrópaði ókvæðisorð til Gomez sem var allt annað en sáttur. Hann gekk upp að henni og sló hana tvisvar.

Gomez kom fram í útvarpsviðtali í Kólumbíu í gær og baðst afsökunar á atvikinu.

„Ég biðst opinberlega afsökunar á atvikinu á laugardaginn og hvernig ég missti stjórn á mér," sagði Gomez.

„Trúið mér, ég hef haft miklar áhyggjur af þessu og ætla að gera hvað ég get til þess að koma í veg fyrir að þetta komi ekki fyrir aftur. Ég ber mikla virðingu fyrir konum eins og þið vitið. Ég skammast mín vegna móður minnar, eiginkonu minnar og allra annarra kvenna í fjölskyldu minni og öllu landinu," sagði Gomez.

Kvenréttindasamtök í Kólumbíu eru allt annað en sátt við Gomez og viðbrögð knattspyrnusambandsins. Þau fara fram á að honum verði vikið úr starfi. Afökunarbeiðni sé ekki nóg þegar um ofbeldi gagnvart kvenfólki sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×