Enski boltinn

Gabriel Obertan semur við Newcastle

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Obertan með boltann gegn Bursaspor í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.
Obertan með boltann gegn Bursaspor í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. Nordic Photos/Getty
Franski kantmaðurinn Gabriel Obertan er genginn til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle. Obertan skrifaði undir fimm ára samning við félagið en kaupverðið er talið vera þrjár milljónir punda eða sem nemur um 567 milljónum íslenskra króna.

Obertan hefur verið á mála hjá Mancester United frá árinu 2009 en átt erfitt með að vinna sér fast sæti í liðinu. Hann kom aðeins við sögu í 15 leikjum á síðustu leiktíð.

„Ég átti tvö góð ár í Manchester en samkeppnin var hörð og ég þurfti að komast til liðs þar sem ég fengi að spila," segir Obertan á heimasíðu Newcastle.

Obertan þótti standa sig afar vel á undirbúningstímabilinu með Manchester United í Bandaríkjunum. Samkeppni um kantstöðuna er þó afar hörð hjá United með Park, Nani og Valencia að ógleymdum Ashely Young.

„Ég veit að það verður ekki auðvelt að komast í liðið hérna heldur því hópurinn er sterkur," segir Obertan og bætti við að hann vildi fríska upp á knattspyrnuferilinn.

Obertan verður í leikmannahópi Newcastle sem tekur á móti Arsenal á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×