Fótbolti

Sex ára fangelsi fyrir að hagræða úrslitum í Búlgaríu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hervöllurinn í Búlgaríu, heimavöllur CSKA Sofia.
Hervöllurinn í Búlgaríu, heimavöllur CSKA Sofia. Nordic Photos/Getty Images
Búlgarska þingið hefur samþykkt lagabreytingu þess efnis að þeir sem hljóta dóm fyrir hagræðingu úrslita í íþróttaleikjum geti fengið allt að sex ára fangelsisdóm. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu.

Fréttir af spillingu og hagræðingu úrslita í Búlgaríu hafa verið tíðar undanfarin ár en þó hefur enginn hlotið dóm. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gagnrýnt yfirvöld í Búlgaríu fyrir aðgerðarleysi sitt.

„Ég vona að þessi ákvæði hjálpi til við að koma í veg fyrir þessi lagabrot,“ sagði Ognyan Stoichkov formaður menningar- og íþróttamálanefndar í búlgarska þinginu.

„Íþróttamenn eiga að bera virðingu fyrir stuðningsmönnunum sem borga miðaverð og vilja sjá heiðarlegan leik en ekki fyrirfram ákveðin úrslit,“ bætti Stoichkov við.

Búlgörsk yfirvöld hafa rannsakað ásakanir um hagræðingu úrslita í átta knattspyrnuleikjum síðasta árið. Meistararnir í Litex Lovech, Levski Sofía og CSKA Sofía eru meðal félaga sem eru til rannsóknar í tengslum við leikina.

Íslensku knattspyrnumennirn Garðar Gunnlaugsson og Jósef Kristinn Jósefsson hafa verið á mála hjá búlgörskum félagsliðum. Báðir hafa lent í erfiðleikum með að fá laun sín greidd og að losna undan samningi hjá félögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×