Fótbolti

Knattspyrnutímabilinu í Tyrklandi frestað um rúman mánuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það er óhætt að segja að tyrkneskir knattspyrnuunnendur séu ástríðufullir.
Það er óhætt að segja að tyrkneskir knattspyrnuunnendur séu ástríðufullir. Nordic Photos/AFP
Knattspyrnusamband Tyrklands ákvað á fundi sínum í gær að fresta tímabilinu þar í landi. Tyrknesk knattspyrna man fífil sinn fegurri en nokkrir tugir manna hafa verið handteknir undanfarnar vikur vegna ásakanna um hagræðingu úrslita.

Keppni í tyrknesku deildarkeppninni átti að hefjast þann 5. ágúst en mun nú ekki hefjast fyrr en 9. september. Hagræðing úrslita í knattspyrnuleikjum er mikið vandamál í Tyrklandi og yfirstandandi rannsókn á þeim er ástæða frestunarinnar.

Rannsóknin nær til margra af stærstu félögum Tyrklands. Í augnablikinu sitja 31 í fangelsi og bíða þess að mál þeirra verði tekin fyrir. Meðal þeirra eru stjórnarformaður meistara Fenerbache, þjálfari og stjórnarformaður Besiktas. Þeir eru ásakaðir um hagræðingu úrslita.

Sepp Blatter forseti FIFA hefur látið hafa eftir sér að þeir sem verða fundir sekir í Tyrklandi verði settir í lífstíðarbann frá afskiptum af knattspyrnu af FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×