Fótbolti

Úrslitaleikurinn fer fram í Buenos Aires - stuðningsmenn rústuðu vellinum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Öryggisverðir sprauta vatni á niðurbrotna stuðningsmenn River Plate
Öryggisverðir sprauta vatni á niðurbrotna stuðningsmenn River Plate Nordic Photos/AFP
Knattspyrnuyfirvöld í Suður-Ameríku hafa gefið grænt ljós á að úrslitaleikurinn í Copa-America fari fram á Minningarvellinum í Buenos Aires. Stuðningsmenn River Plate lögðu völlinn í rúst fyrir tíu dögum þegar ljóst var að félagið væri fallið úr efstu deild.

„Þetta verður tæpt en mun takast," sagði Jose Luis Meiszner forseti skipulagsnefndar keppninnar. Leikurinn, sem er sá eini sem fer fram í höfuðborginni, fer fram 24. júlí á þjóðarleikvanginum sem tekur 62 þúsund manns.

Verkamenn eru í miklu kapphlaupi við tímann en völlurinn er stórskemmdur eftir 1-1 jafntefli River Plate gegn Belgrano. Fótboltabullurnar „Barra brava" misstu stjórn á sér að loknum leiknum en úrslitin þýddu að félagið féll úr efstu deild. River Plate tapaði fyrri viðureigninni 2-0.

Fjögur þúsund sæti voru rifin upp og mörgum þeirra fleygt inn á völlinn. Þá brutu stuðningsmennirnir öryggisgler og rúður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×