Fótbolti

Tala látinna í Twente hækkar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
De Grolsch Veste
De Grolsch Veste Nordic Photos/AFP
24 ára karlmaður sem slasaðist þegar þakið á leikvangi FC Twente féll á verkamenn á fimmtudaginn lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í gær. Þar með hafa tveir látið lífið vegna slyssins.

Talið er að þakið á leikvanginum hafi hrunið vegna þess að tveir burðarbitar kiknuðu. Hvers vegna það gerðist er óvitað en talsmaður Twente sagði að rannsókn væri að hefjast til þess að komast að því.

Aðallið FC Twente hefur verið við æfingar á Nýja-Sjálandi en ákveðið hefur verið að stytta heimsóknina og meðal annars fella niður fyrirhugaðan leik liðsins við landslið heimamanna.

„Við sendum sterka strauma til allra sem tengjast málinu og sérstaklega sendum við samúðarkveðjur til fjölskyldna þeirra látnu," sagði Joop Munsterman stjórnarformaður Twente.

Fyrirhugað var að leikvangurinn yrði opnaður með pompi og prakt 17. júlí en ljóst er að svo verður ekki. Leikvangurinn var byggður árið 1998 og tók þá 13.500 manns í sæti. Eftir endurbæturnar átti hann að taka um 32 þúsund áhorfendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×