Fótbolti

Cannavaro leggur skóna á hilluna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Cannavaro með HM bikarinn fyrir úrslitaleikinn í Suður-Afríku 2010
Cannavaro með HM bikarinn fyrir úrslitaleikinn í Suður-Afríku 2010 Nordic Photos/AFP
Knattspyrnumaðurinn Fabio Cannavaro hefur ákveðið að fylgja læknisráði og leggja skóna á hilluna. Cannavaro var fyrirliði heimsmeistaraliðs Ítalíu árið 2006 og var valinn knattspyrnumaður ársins af FIFA sama ár.

„Þetta er sorgardagur fyrir mig vegna þess hve stóran þátt fótbolti hefur spilað í mínu lífi síðustu tuttugu ár. En það er ekkert sem ég get gert," sagði Cannavaro við fréttamenn.

Cannavaro spilaði á ferli sínum með Parma, Juventus, Inter og Real Madrid en hefur undanfarið ár spilað með Al Ahli í Dubai.

„Meiðsli eru hluti af því að vera íþróttamaður. En lífið heldur áfram. Allt íþróttafólk þarf að taka þessa ákvörðun einn daginn. Sá dagur er runninn upp hjá mér," sagði Cannavaro.

Cannavaro ætlar að búa áfram í Dubai og starfa fyrri Al Ahli sem tæknilegur ráðgjafi og sendiherra. Samningurinn er til þriggja ára.

„Ég er himinlifandi að hafa fengið nýjan samning hjá félaginu. Ég er ekki alveg viss hvert hlutverk mitt verður en ég er mjög spenntur yfir tilboðinu," sagði Cannavaro sem segir að fjölskyldu sinni og sér líði vel í Dubai.

Eftir frábæra frammistöðu á HM 2006 þar sem fáir voru ósammála því að þar færi besti varnarmaður í heimi var allt annað upp á teningnum fjórum árum síðar á HM í Suður-Afríku. Cannavaro lagði landsliðsskóna á hilluna eftir dapran árangur liðsins á mótinu. Nú eru allir skórnir komnir upp í hillu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×