Fótbolti

Fred bjargaði stigi fyrir Brasilíu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Paragvæar fagna marki í kvöld
Paragvæar fagna marki í kvöld Nordic Photos/AFP
Brasilía og Paragvæ skildu jöfn 2-2 í annarri umferð B-riðils í Suður-Ameríkukeppninni í knattspyrnu í Argentínu í kvöld. Fred bjargaði málunum fyrir Brasilíu skömmu fyrir leikslok.

Jadson kom Brasilíu yfir í leiknum á 39. mínútu með fínu skoti utan teigs og fimmtaldir heimsmeistarar leiddu í hálfleik. Roque Santa Cruz leikmaður Manchester City jafnaði hins vegar metin 1-1 snemma í síðari hálfleik.

Varamaðurinn Nelson Valdez kom Paragvæ yfir á 68. mínútu með skrýtnu marki. Valdez skaut úr dauðafæri, Julio Cesar varði en boltinn hrökk í Valdez og í markið. Skondið mark.

Mínútu fyrir leikslok jafnaði svo varamaðurinn Fred metin fyrir Brasilíu. Lítið benti til þess að Brasilíu tækist að jafna en markið gríðarlega mikilvægt.

Bæði lið gerðu marklaust jafntefli í fyrsta leik sínum í riðlinum. Brasilía gegn Venesúela og Paragvæ gegn Ekvador. Liðin eru því bæði með tvö stig í riðlinum.

Viðureign Ekvador og Venesúela fer fram síðar í kvöld. Síðasta umferð í B-riðli fer fram á miðvikudaginn þegar Brasilía mætir Ekvador og Paragvæ mætir Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×