Fótbolti

Heimsmeistarar Þjóðverja fallnir úr leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maruyama sendir boltann í fjærhornið og tryggir Japönum sigur
Maruyama sendir boltann í fjærhornið og tryggir Japönum sigur Nordic Photos/AFP
Óvænt úrslit urðu á heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu í Wolfsburg í kvöld. Japan sló út heimsmeistarana, gestagjafa Þjóðverja með 1-0 sigri eftir framlengingu.

Reiknað var með miklu af þýska liðinu á heimavelli. Jafnræði var með liðunum í venjulegum leiktíma en Þjóðverjar voru þó betri ef eitthvað var.

Varamaðurinn Karina Maruyama kom Japönum yfir með marki í upphafi síðari hluta framlengingar. Hún komst þá í þröngt færi í teignum og sendi boltann í fjærhornið.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákvað Angerer markvörður Þjóðverja að velja sér horn. Hún kastaði sér í það vinstra en boltið sveif í það hægra.

Þjóðverjar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en Ayumi Kaihori í marki Japana var öryggið uppmálið.

Þjóðverjar höfðu ekki tapað leik á heimsmeistaramóti síðan þýska liðið tapaði 3-2 á HM 1999.

Fyrr í kvöld slógu Frakkar út Englendinga eftir vítaspyrnukeppni.

Á morgun fara fram síðari viðureignirnar í 8-liða úrslitum. Þá mætast Brasilía og Bandaríkin auk þess sem Svíþjóð mætir Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×