Fótbolti

Venesúela vann óvæntan 1-0 sigur á Ekvador

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Venesúelabúar eru afar stoltir af frammistöðu liðs síns í Argentínu
Venesúelabúar eru afar stoltir af frammistöðu liðs síns í Argentínu Nordic Photos/AFP
Venesúela heldur áfram að koma á óvart í Suður-Ameríkukeppninni í knattspyrnu. Liðið vann í kvöld 1-0 sigur á Ekvador og er í góðri stöðu fyrir lokaumferð riðlakeppninnar.

Leikurinn í kvöld var afar jafn en Venesúela skoraði eina mark leiksins á 61. mínútu. Þá átti miðjumaðurinn César González frábært skot utan teigs sem söng neðst í markhorninu.

Fyrr í kvöld skildu Brasilía og Paragvæ jöfn 2-2 í hinum leik C-riðils.

Sigurinn er aðeins sá þriðji hjá Venesúela í sögu keppninnar. Þjóðin á að baki marga stóra ósigra í gegnum tíðina. Það virðist heldur betur vera að birta til hjá þjóðinni sem gerði jafntefli gegn Brasilíu í fyrstu umferð.

Liðið situr á toppi C-riðils með fjögur stig. Brasilíumenn og Paragvæar hafa tvö stig en Ekvador rekur lestina með eitt stig.

Lokaleikir riðilsins fara fram á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×