Enski boltinn

Joey Barton orðaður við Arsenal

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Joey Barton hefur verið orðaður við Arsenal að undanförnu.
Joey Barton hefur verið orðaður við Arsenal að undanförnu. Nordic Photos/Getty Images
Það er án efa margt í gangi á bak við tjöldin á leikmannamarkaðinum á Englandi þessa dagana og margar óstaðfestar sögur í gangi. Joey Barton leikmaður Newcstle hefur tjáð sig um stöðu mála hjá Newcastle eftir að Kevin Nolan fór frá félaginu til West Ham. Barton var ekki sáttur og skrifaði að hann sjálfur gæti verið á förum ásamt þeim José Enrique og Jonas Gutierrez. Og það lið sem nefnt hefur verið sem næsti áfangastaður Barton er Arsenal.

Barton þarf ekkert að berja í sig sjálfstraustið á meðan hann burstar tennurnar því hann hélt því fram að hann væri besti miðjumaðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Enskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Arsenal hafi sýnt Barton áhuga en samningur Barton við Newcastle rennur út eftir næsta tímabil.

Sagan endalausa af Cesc Fabregas heldur enn áfram og margar fréttir birtast á hverjum degi um að hann sé á förum frá Arsenal til Barcelona á Spáni.

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United er sagður hafa sýnt Lassana Diarra leikmanni Real Madrid áhuga – enda þarf að fylla skarðið sem Paul Scholes skilur eftir sig. Diarra hefur fengið þau skilaboð frá Jose Mourinho knattspyrnustjóra Real Madrid að hann sé ekki efstur á forgangslistanum þegar kemur að liðsvalinu. Diarra hefur leikið með Arsenal og Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni. Framtíð Kóreumannsins Ji-Sung Park hjá Man Utd gæti því verið óljós en hinn þrítugi Park hefur verið orðaður við spænsku liðin Sevilla og Atletico Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×