Enski boltinn

Samba gæti verið á leið frá Blackburn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Christopher Samba segir að hann myndi fagna því að ef hann fengi tækifæri til að komast að hjá stærra liði en Blackburn. Samba var einn besti leikmaður Blackburn á síðustu leiktíð og hefur verið orðaður við Arsenal að undanförnu.

„Ég veit að það hafa átt sér stað einhverjar viðræður við önnur félög,“ sagði hann við franska fjölmiðla. „Ef upp kemur gott tækifæri fyrir mig vil ég nýta mér það. Það er nauðsynlegt að félagið hafi skilning á því að ég vil taka næsta skref á mínum ferli.“

„Ég vona að Blackburn muni ekki leggja stein í mína götu. Ég hef verið hjá Blackburn í fjögur og hálft ár og tvisvar hef ég þurft að taka þátt í fallbaráttu,“ sagði Samba.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Samba lætur frá sér álíka ummæli. Síðast gerði hann það þegar að félagaskiptaglugginn var opinn í janúar en stuttu síðar skrifaði hann undir nýjan samning við Blackburn sem er í gildi til ársins 2015.

Steve Kean, stjóri Blackburn, vill ekki selja hann. „Hann er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning og er einn af þeim leikmönnum sem við viljum halda. Við ætlum að reyna að halda honum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×