Enski boltinn

Rossi útilokar ekki að snúa aftur til United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Giuseppe Rossi, leikmaður Villarreal á Spáni, segir vel koma til greina að fara frá félaginu og ganga til liðs við stórlið eins og Manchester United.

Rossi hefur slegið í gegn hjá Villarreal og til að mynda unnið sér fast sæti í ítalska landsliðinu. Hann gekk í raðir Manchester United sautján ára gamall frá Parma á Ítalíu en var seldur til Villarreal fyrir fjórum árum síðan. Síðan þá hefur hann skorað 51 mark í 127 deildarleikjum.

„Ég held að það sé draumur allra knattspyrnumanna að spila með stærstu félagsliðunum - hvort sem það er Manchester United, Barcelona eða Real Madrid,“ sagði Rossi sem fæddist í Bandaríkjunum og ólst þar upp til tólf ára aldurs.

„Þetta eru bestu lið heimsins og er ég eins og allir aðrir. Ég mun því halda áfram að sinna minni vinnu og vona það besta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×