Enski boltinn

Robson hafði mikil áhrif á Villas-Boas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Andre Villas-Boas, nýr knattspyrnustjóri Chelsea, segir að Bobby Robson hafi haft mikil áhrif á sig á meðan sá síðarnefndi var stjóri Porto frá 1994 til 1996.

Villas-Boas er aðeins 33 ára gamall og því ekki orðinn tvítugur þegar að Robson starfaði hjá Porto. „Bobby var mjög mikilvæg persóna fyrir minn feril,“ sagði Villas-Boas við enska fjölmiðla. „Hann var sá sem hvatti mig þegar ég var mjög ungur að taka eins mörg þjálfarnámskeið og ég gat. Hann hleypti mér svo inn á æfingasvæðið hjá Porto.“

„Samband okkar var mjög gott og ég bar mikla virðingu fyrir honum. Hann er mikilvægur hluti af sögu enskrar knattspyrnu og ég held að hann væri ánægður með komu mína til Chelsea,“ sagði Villas-Boas en Robson lést árið 2009.

Villas-Boas hefur starfað mikið undir leiðsögn Jose Mourinho á ferlinum en Mourinho naut einnig á sínum tíma leiðsagnar Robson. „Hann hefur hjálpað mörgum í gegnum tíðina, ekki bara mér og Jose. Hann setti meiri ábyrgð á þeirra herðar og hvatti þá til að takast á við sín hlutverk á sinn máta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×