Fótbolti

Samkynhneigð ekki æskileg í nígeríska landsliðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Uche ásamt þjálfurum Kanada, Frakklands og Þýskalands, þjóðanna í í A-riðli
Uche ásamt þjálfurum Kanada, Frakklands og Þýskalands, þjóðanna í í A-riðli Mynd/AFP Nordic
Eucharia Uche, þjálfari nígeríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur undanfarin tvö ár reynt að útrýma samkynhneigð í landsliðinu. Nígería spilar sinn fyrsta leik á HM í Þýskalandi á sunnudag.

Uche tók við starfi landsliðsþjálfara árið 2009. Skömmu áður hafði hún sagt í fyrirlestri að hún hefði áhyggjur af samkynhneigð í landsliðshópnum. Síðan hefur hún reynt að vinna gegn samkynhneigðinni með því að hjálpa leikmönnum sínum að rækta trúnna.

„Þegar orðrómur er sterkur þá hlýturðu að trúa því að eitthvað sé að eiga sér stað," sagði Uche í viðtali við New York Times. Uche segist þó aldrei hafa orðið vitni að neinu sem benti til þess að leikmennirnir væru samkynheigðir.

Fyrr á árinu var vitnað í fyrrum samstarfsmann Uche hjá landsliðinu, James Peters, sem sagðist ári fyrr hafa tekið nokkra leikmenn út úr landsliðshópnum.

„Ekki vegna skorts á getu heldur vegna þess að þær voru lesbíur," sagði Peters við nígerískt dagblað.

Uche segir það þó ekki vera hennar stíl. Hún hafi fengið presta í lið með sér. Þeir biðji með leikmönnunum og ráðleggi þeim. Þá lesi konurnar Biblíuna og biðji stundum saman í hóp.

Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA, skipuleggjandi HM í Þýskalandi sem hefst um helgina, hefur ekkert aðhafst þrátt fyrir ummælin. Sambandið segist ekkert geta gert í málefnum Nígeríu fyrr en formlegar upplýsingar eða kvartanir berist.

Eitt af markmiðum FIFA er „að nota knattspyrnuna til þess vinna bug á félags- og menningarlegu mótlæti kvenna með höfuðmarkmið að bæta stöðu kvenna í samfélaginu."

Fyrsti leikur Nígeríu á HM í Þýskalandi er gegn Frakklandi á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×