Fótbolti

Tomislav Ivic látinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Króatíski knattspyrnuþjálfarinn Tomislav Ivic lést í gær, 77 ára gamall. Hann er af mörgum talinn einn fremsti knattspyrnuþjálfari síns tíma. Ivic glímdi við ýmis veikindi síðustu árin og lést á sjúkrahúsi í heimabæ sínum, Split.

Hann hóf þjálfaraferil sinn árið 1967 og var starfandi allt til ársins 2004. Á þeim tíma stýrði hann fjórum landsliðum og fjórtán félagsliðum. Alls vann hann átta meistaratitla í sex löndum og var þess vegna valinn sigursælasti knattspyrnuþjálfari allra tíma af ítalska íþróttaritinu La Gazzetta dello Sport árið 2007.

Hann starfaði alls í tíu löndum og vann deildar- og bikarmeistaratitla í sjö þeirra - Júgúslavíu, Hollandi, Belgíu, Grikklandi, Portúgal, Spáni og Frakklandi.

Meðal þeirra félaga sem hann þjálfaði má nefna Ajax, Marseille, Paris Saint-Germain og Porto. Hann stýrði landsliðum Júgóslavíu, Króatíu, Íran og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×