Enski boltinn

Alvarez og tveir til viðbótar á leið til Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ricardo Alvarez í leik með Velez Sarsfield.
Ricardo Alvarez í leik með Velez Sarsfield. Nordic Photos / AFP
Maurizio Zamparini, forseti ítalska félagsins Palermo, fullyrti í gær að Ricardo Alvarez væri á leið til Arsenal.

Argentínumaðurinn Alvarez er miðvallarleikmaður sem er á mála hjá Velez Sarsfield í heimalandinu. Zamparini hafði mikinn hug á að fá hann til Palermo en sagði í gær að Arsenal hefði unnið kapphlaupið um undirskrift kappans.

Þetta hefur þó ekki verið staðfest af Lundúnarfélaginu en talið er afar líklegt að hinn 23 ára gamli Alvarez muni klæðast búningi Arsenal á næstu leiktíð.

Enskir fjölmiðlar fullyrða þó að Alvarez sé ekki eini leikmaðurinn sem er á leiðinni til Arsenal. Þeir Alex Oxlade-Chamberlain og Gervinho eru einnig sterklega orðaðir við félagið og fullyrt að allir þrír verði kynntir formlega til sögunnar sem leikmenn Arsenal strax í næstu viku.

Oxlade-Chamerlain er sautján ára kantmaður sem leikur með Southampton, sama félagi og Theo Walcott áður en hann gekk ungur að árum til liðs við Arsenal.

Fílabeinsstrendingurinn Gervinho getur bæði leikið á miðjunni og í sókn en hann er 24 ára gamall og hefur skorað alls 28 mörk í 67 leikjum með Lille undanfarin tvö tímabil. Arsenal er sagt reiðubúið að greiða tólf milljónir punda fyrir kappann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×