Enski boltinn

Leikmenn fá frelsi til að spila sinn fótbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andre Villas-Boas fagnar eftir að Porto vann Evrópudeild UEFA í vor.
Andre Villas-Boas fagnar eftir að Porto vann Evrópudeild UEFA í vor. Nordic Photos / AFP
Andre Villas-Boas, nýr knattspyrnustjóri Chelsea, er í viðtali hjá enska dagblaðinu The Sunday Mirror í dag þar sem hann segir að leikmenn munu fá frelsi til að njóta sín undir hans stjórn.

„Ég er alls enginn einræðisherra,“ sagði Villas-Boas sem er aðeins 33 ára gamall og náði góðum árangri með Porto á síðustu leiktíð. „Leikmenn ná aðeins sínu besta fram ef þeir eru ekki í neinum hlekkjum og fá að standa á eigin fótum.“

„Það er mikilvægt að leikmenn sýni frumkvæði og sköpunargleði. Ég elska hvað knattspyrnan getur verið óútreiknanleg. Ég er mikill fylgismaður þess að leikmenn verði að geta tjáð sig til að laða sitt besta fram og að þeir taki eigin ákvarðanir þegar þeir eru á vellinum.“

Hann segir það óhjákvæmilegt að aldur sinn myndi vekja athygli en bætti við að hann hefði aldrei tekið að sér starfið ef hann teldi sig ekki geta náð árangri.

„Ég er með mínar væntingar og vil vera stoltur af mínum ferli þegar honum líkur. Ég vil ná árangri og vinna titla. Ég vil starfa í mismunandi deildum og takast á við nýja siði og menningarheima.“

„Ég vildi fá þetta starf. Ég skil vel að fólk telji áhættu fólgna í því að ráða svona ungan mann en ef ég sjálfur hefði ekki trú á mér þá væri enginn tilgangur með þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×