Enski boltinn

Adebayor hafnaði Zenit og mætir til æfinga hjá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adebayor fagnar marki ásamt Cristiano Ronaldo í leik með Real Madrid.
Adebayor fagnar marki ásamt Cristiano Ronaldo í leik með Real Madrid. Nordic Photos / AFP
Emmanuel Adebayor mun hefja undirbúningstímabilið hjá Manchester City í næsta mánuði eftir að hann hafnaði tilboði um að ganga til liðs við Zenit frá St. Pétursborg í Rússlandi.

Adebayor var lánaður til Real Madrid á síðari hluta síðasta tímabils en félagið ákvað að nýta ekki kauprétt sinn á kappanum. Hann hefur einnig verið orðaður við Marseille í Frakklandi en talið er að Roberto Mancini, stjóri City, hafi lítinn áhuga á að nota hann á komandi leiktíð.

„Ef ég fer aftur til City þá geri ég það með glöðu geði. Það sama gildir ef ég verð áfram í Madríd. Það sem mestu máli skiptir er að ég vil spila.“

„En ég vil taka það skýrt fram að það eru engir möguleikar á því að ég fari til Zenit. Ég elska landið en ég sé ekki fyrir mér að ég muni spila í Rússlandi.“

„Það er ekkert sem ég þarf að sanna fyrir öðrum enda hef ég gert mikið á ferlinum. Ég hef skorað mörg mikilvæg mörk og spilað marga stóra leiki. Ég finn því ekki fyrir neinni pressu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×