Enski boltinn

Gibson tilbúinn að yfirgefa United

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gibson í leik með Englandsmeisturunum
Gibson í leik með Englandsmeisturunum Mynd/Getty Images
Darron Gibson, miðvallarleikmaður Manchester United, segist reiðubúinn að yfirgefa herbúðir félagsins fái hann ekki nægan spilatíma. Sunderland gerði fyrr í vikunni boð í þrjá leikmenn Manhcester United þá Wes Brown, John O'Shea auk Gibson.

„Ég hef enn ekki rætt málin við Sir Alex en ef ég fæ ekki að spila nóg verð ég að fara annað,“ sagði Gibson við breska fjölmiðla.

Það hafa skipst á skin og skúrir hjá Íranum á tíma hans hjá Manchester United. Hann hefur átt flottar frammistöður inn á milli en sumum þykir hann ekki hafa nóg gæði til þess að klæðast treyju Englandsmeistaranna.

Eftirminnilegt er þegar Gibson þurfti að loka Twitter-aðgangi sínum fyrr í vetur vegna þess hve slæmar móttökur hann fékk á samskiptavefnum frá stuðningsmönnum United.

„Það væru rosaleg viðskipti ef Sunderland tækist að kaupa okkur alla,“ sagði Gibson. Hann segist verða hugsa um eigin hagsmuni.

„Ég verð 24 ára fljótlega. Ef ég fæ ekki að spila reglulega verð ég að fara eitthvað annað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×