Enski boltinn

Alex McLeish tekinn við Aston Villa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birmingham vann deildabikarinn en féll undir stjórn McLeish á síðasta tímabili
Birmingham vann deildabikarinn en féll undir stjórn McLeish á síðasta tímabili Mynd/Nordic Photos/Getty
Skotinn Alex McLeish hefur gengið frá þriggja ára samningi við Aston Villa. McLeish, sem sagði starfi sínu lausu sem knattspyrnustjóri Birmingham síðastliðna helgi, segist þurfa að sanna fyrir gagnrýnum stuðningsmönnum að hann sé sá rétti í starfið.

Um 500 stuðningsmenn Aston Villa mótmæltu fyrirhugaðri ráðningu McLeish fyrir utan heimavöll félagsins á miðvikudag.

„Ég veit að sumir stuðningsmenn okkar hafa áhyggjur og ég skil hvers vegna. Það er undir mér komið að sannfæra ykkur um að ég sé rétti maðurinn til þess að bæta gengi félagsins. Ég mun leggja allt í sölurnar til þess að svo muni vera,“ sagði McLeish eftir að gengið var frá samningnum.

Forráðamenn Birmingham eru allt annað en sáttir við uppsögn McLeish sem þeir segja engann grundvöll hafa verið fyrir. Þeir fara fram á að McLeish eða Aston Villa greiði rúmar fimm milljónir punda í skaðabætur.

McLeish hefur auk Birmingham meðal annars þjálfað Glasgow Rangers og skoska landsliðið. Undir hans stjórn vann skoska landsliðið einn sinn glæstasta sigur gegn Frökkum á útivelli.

Hann spilaði undir stjórn Sir Alex Ferguson í gullaldarliði Aberdeen á 9. áratug síðustu aldar. Þá spilaði hann 77 landsleiki fyrir Skotland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×