Fótbolti

FIFA rannsakar landsleik Nígeríu og Argentínu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nóg af verkefnum framundan hjá Sepp Blatter og félögum hjá FIFA.
Nóg af verkefnum framundan hjá Sepp Blatter og félögum hjá FIFA. Mynd/Getty Images
Alþjóða knattspyrnusambandið rannsakar um þessar stundir vináttulandsleik Nígeríu og Argentínu sem fram fór í Abuja í Nígeríu í síðustu viku. Óeðlilegar hreyfingar á veðmálamarkaðnum undir lok leiksins eru ástæða rannsóknarinnar.

„FIFA getur staðfest að þessi leikur er einn nokkurra sem við erum að skoða og er hluti af stærri rannsókn,“ sagði talsmaður FIFA við breska fjölmiðla.

Nígería sigraði í leiknum 4-1 en voru 4-0 yfir þegar skammt var til leiksloka. Dómari leiksins bætti fimm mínútum við venjulegan leiktíma. Á áttundu mínútu viðbótartímans dæmdi dómari leiksins afar vafasama vítaspyrnu sem gestirnir skoruðu úr.

Á ýmsum vefmálasíðum er hægt að veðja um líklegan gang knattspyrnuleikja allt frá úrslitum og markaskorurum til fjölda hornspyrna og innkasta.

Í leiknum umrædda í Nígeríu voru óeðlilega margir áhorfendur sem höfðu á tilfinningunni að fimmta mark yrði skorað í leiknum þótt skammt væri til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×