Fótbolti

Skúli Jón þakklátur verkfalli flugvirkjanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Strákarnir í U-21 landsliði Íslands voru mættir snemma út í Leifsstöð fyrir ferðalagið til Danmerkur í dag. Evrópumeistaramótið hefst þar á laugardaginn kemur.

Reyndar var hópurinn aðeins seinna á ferðinni en áætlað var vegna verkfallsaðgerða flugvirkja Icelandair í morgun. Flugi liðsins til Kaupmannahafnar seinkaði um rúmar tvær klukkustundir.

Skúli Jón Friðgeirsson, landsliðsmaður og leikmaður KR, var að spila með sínu liði í Pepsi-deildinni í gær og því þakklátur fyrir að fá að sofa aðeins lengur í morgun.

„Það var vitað við myndum fara snemma út á völl daginn eftir þennan leik en það kom þessi seinkun. Ég er því hálfpartinn útsofinn í dag,“ sagði Skúli Jón við Vísi en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Hann var því bara nokkuð sáttur við verkfall flugvirkjanna.

„Já, það var ágætt að fá að sofa í tvo tíma til viðbótar. Ég náði því að sofa í fjóra tíma í stað tveggja.“

„Skrokkurinn er fínn eins og er - ég held að harðsperrur og annað sé ekki komið enn vegna þess að svefninn var svo stuttur. Við sjáum til hvernig hann verður seinni partinn á æfingunni.“

KR-ingar unnu 2-0 sigur á FH í gær og sitja á toppi Pepsi-deildarinnar, enn taplausir eftir sjö umferðir. Skúli Jón segir að það sé góð tilfinning að fara þannig til Danmerkur.

„Það var það sem ætluðum að gera. Við erum taplausir og þetta er eins gott og þetta getur orðið.“

Hann segir að leikmenn U-21 liðsins reyni að halda sér á jörðinni þó svo að mótið sé nú að bresta á eftir langa bið.

„Við reynum það alla vega. Við vitum lítið um hin liðin en við þykjumst vera klárir. Þetta verður örugglega glæsilegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×