Fótbolti

Ólafur Ingi keyptur til Belgíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Pjetur
Ólafur Ingi Skúlason, leikmaður danska úrvalsdeildarfélagsins SönderjyskE, skrifaði um helgina undir þriggja ára samning við belgíska félagið Zulte-Waregem.

Þetta var tilkynnt fyrir leik SönderjyskE gegn Bröndby í lokaumferð tímabilsins í dönsku úrvalsdeildinni um helgina en talið er að kaupverðið sé á milli 30 og 40 miljónir íslenskra króna.

Ole Nielsen, íþróttastjóri félagsins, lofaði Ólaf mikið í viðtali á heimasíðu félagsins og sagði hann skilja eftir sig stórt skarð á miðju félagsins. Þetta hafi þó verið einstakt tækifæri fyrir hann og ekki annað hægt en að taka tilboði Belganna.

Zulte-Waregem varð í ellefta sæti belgísku úrvalsdeildarinnar í vetur en Ólafur Ingi sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að eigandi félagsins ætlaði að koma því nær hópi efstu fjögurra liða deildarinnar.

Ólafur Ingi hélt fyrst í atvinnumennsku fyrir áratug síðan en fyrstu fjögur árin var hann á mála hjá Arsenal. Hann lék svo með Brentford í tvö ár áður en hann hélt til Svíþjóðar árið 2007 en þar lék hann með Helsingborg í þrjú ár, áður en hann fór til Danmerkur þar sem hann hefur verið síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×