Fótbolti

Voetbal International: Ajax ætlar að bjóða 330 milljónir í Kolbein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Mynd/AP
Hið virta hollenska fótboltablað Voetbal International slær því í upp í morgun að hollenska stórliðið Ajax frá Amsterdam ætli að bjóða tvær milljónir evra í íslenska framherjann Kolbein Sigþórsson sem hefur slegið í gegn með AZ Alkmaar í vetur. Þetta eru um 330 milljónir í íslenskum krónum sem er dágóð upphæð fyrir 21 árs gamlan strák.

Kolbeinn skoraði tvö mörk fyrir AZ í 3-1 sigri á De Graafschap um helgina og skoraði hann þar í þriðja leiknum í röð. Kolbeinn hefur nú alls skorað 15 mörk í 31 deildarleik með AZ á þessu tímabili og er alls með 18 mörk í 39 leikjum í öllum keppnum.

Blaðamaður Voetbal International skrifar einnig um að þýsku meistararnir í Borussia Dortmund hafi einnig áhuga á Kolbeini og að AZ vilji fá að minnsta kosti fjórar milljónir evra fyrir leikmanninn eða um 660 milljónir íslenskra króna.

Fyrr í vetur heyrðist einnig af áhuga margra enskra liða á íslenska landsliðsframherjanum og var þá Newcastle United efst á blaði. Blaðamaður Voetbal International segir líka að það líti allt út fyrir að Kolbeinn yfirgefi lið AZ í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×