Enski boltinn

Manchester City vill fá 50 milljónir punda fyrir Tevez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez .
Carlos Tevez . Mynd/AP
Það stefnir allt í það að Carlos Tevez fari frá Manchester City liðinu í sumar þrátt fyrir að hann eigi þrjú ár eftir af samningi sínum við félagið. City-menn vilja frá 50 milljónir punda fyrir argentínska framherjann.

Guardian skrifar um það í dag að forráðamenn City séu nú sannfærðir um að Carlos Tevez muni biðja um það að verða settur á sölulista í sumar en það var frægt þegar Tevez heimtaði það að vera seldur í vetur.

Forráðamenn City ætla sér hinsvegar ekki að selja fyrirliða sinn nema að þeir fái í það minnsta umræddar 50 milljónir fyrir hann. Tevez er enn bara 27 ára gamall og hann hefur skorað 51 mark í 82 leikjum fyrir Manchester City.

Fernando Torres fór frá Liverpool til Chelsea fyrir 50 milljónir en nú er að sjá hvort eitthvert félag hafi efni á því að eyða svona miklu í einn leikmann eins og Tevez.

City-menn eru samt þegar farnir að leita að eftirmanni Tevez en þeir hafa mikinn áhuga á Síle-búanum Alexis Sánchez hjá Udinese. Sánchez sló í gegn með Síle á HM síðasta sumar og er mjög eftirsóttur enda vilja United og Real Madrid einnig fá þennan 22 ára vængmann til sín.

Síðasti leikur Carlos Tevez með Manchester City gæti því orðið bikarúrslitaleikurinn á móti Stoke fari svo að hann verði búinn að ná sér af meiðslunum sem hafa hrjáð hann að undanförnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×