Fótbolti

Aðeins eitt tilboð hefur komið í Kolbein og því var hafnað

Arnar Björnsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Mynd/AFP
Hollenska stórliðið Ajax fær harða samkeppni frá nokkrum liðum um Kolbeinn Sigþórsson sem slegið hefur í gegn í hollenska fótboltanum í vetur með AZ Alkmaar.

Ernie Stewart er íþróttastjóri AZ Alkmaar, en hann lék tæplega 500 leiki í hollensku deildinni og 101 landsleik fyrir Bandaríkin.

Hann sagði í samtali við íþróttadeildina í morgun að aðeins eitt tilboð hafi borist í Kolbein, það hafi komið frá Ajax en því hafi verið hafnað.

Stewart segir að margar fyrirspyrnir hafi borist félaginu um Kolbein og staðfestir að mikill áhugi sé á honum enda vart nema von, því Kolbeinn hafi staðið sig frábærlega hjá félaginu.

Samningur hans rennur út eftir næstu leiktíð og Kolbeinn er búinn að tilkynna forráðamönnum AZ liðsins að hann ætli ekki að endurnýja samninginn.

Kolbeinn hefur skorað 15 mörk í 31 leik í hollensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en hann hefur nú skorað mark í þremur leikjum í röð og alls ellefu mörk í síðustu tólf deildarleikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×