Fótbolti

UEFA ætlar að styðja Blatter í forsetakjörinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Nordic Photos / Getty
Framkvæmdarstjórn Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, ætlar að styðja Sepp Blatter í forsetakjöri Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, í næsta mánuði. Þetta hefur fréttastofa BBC eftir sínum heimildum.

Stjórnin mun hvetja alla sína meðlimi, þeirra á meðal Knattspyrnusamband Íslands, til að kjósa Blatter sem hefur verið forseti FIFA síðan 1998. Mótframbjóðandi hans er Mohamed Bin Hammam frá Katar, forseti Knattspyrnusambands Asíu.

Michel Platini, forseti UEFA, var náinn samstarfsmaður Blatter áður en hann tók við sínu embætti árið 2007 og hlaut stuðning Blatter í því kjöri.

Sjálfur hefur Blatter sagt að verði hann kjörinn muni hann stíga til hliðar þegar næsta kjörtímabili rennur út, árið 2015.

FIFA hefur margoft verið gagnrýnt af hinum ýmsu ástæðum í gegnum tíðina og þá helst fyrir spillingu. Sú umræða var hávær í aðdraganda ákvörðunnar um hvar HM 2018 og 2022 ætti að fara fram og þá sérstaklega í enskum fjölmiðlum.

England var einn umsækjanda um keppnina árið 2018 en hlaut afhroð í kjörinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×