Innlent

Öll 10 ára börn fengu stjörnukort að gjöf

Krakkarnir í Grunnskóla Seltjarnarness fengu fyrstu eintökin af stjörnukortunum frá Stjörnuskoðunarfélaginu.
Fréttablaðið/GVA
Krakkarnir í Grunnskóla Seltjarnarness fengu fyrstu eintökin af stjörnukortunum frá Stjörnuskoðunarfélaginu. Fréttablaðið/GVA
Tíu ára krakkar í Grunnskóla Seltjarnarness fengu skemmtilegan glaðning á fimmtudag þegar fulltrúar frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Stjörnufræðivefnum færðu þeim veglegt stjörnukort að gjöf.

Stjörnuskoðunarfélagið hyggst gefa öllum 10 ára börnum á Íslandi þetta kort á næstunni.

Á kortinu má sjá stjörnuhimininn yfir Íslandi að vori og hausti og er vonast til þess að það reynist góð viðbót við náttúrufræðikennslu í grunnskólum.

„Stjörnufræðikennsla er einn af lykilþáttum í kennslu um náttúrufræði og með því að gefa nemendum og kennurum stjörnukort viljum við hvetja þá enn frekar til dáða,“ segir Sverrir Guðmundsson, ritari Stjörnuskoðunarfélagsins og einn af umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins, í tilkynningu frá félaginu.

Sverrir bætir því við að vissulega sé gjöf sem þessi talsvert átak fyrir 300 meðlima áhugamannafélag en vonast til þess að hægt verði að endurtaka leikinn á næsta ári. Ásamt Stjarnvísindafélagi Íslands gaf félagið Galíleó-sjónauka í alla grunn- og framhaldsskóla í fyrra.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×